Að breyta ergelsi og pirru í reykelsi og mirru.

Hafi maður ekki nægileg verkefni við að vera þá er að skapa sér þau og það er alltaf hægt, þótt svo maður geti ekki alla hluti líkamlega eins og í mínu tilfelli,  þá getur maður eigi að síður einbeitt sér að því sem fellur innan þeirra marka.

Það hjálpar mikið þegar eitthvað gengur manni mót, svo mikið er víst.

Því miður er ég ekki nógu dugleg að fara í gönguferðir hér í Fljótshlíðinni vegna þess einfaldlega að ég er svo mikill aumingi að labba upp brekkuna sem afleggjarinn niður á veg inniheldur, en allt hefur sinn stað og tíma og ég vonast til að taka aftur til við göngutúra ef ég verð á næsta verustað mínum á jafnsléttu. 

Sjúkraþjálfunin mín á Hvolsvelli hjálpar mér til þess að halda í heilsutetrið sem ég á eftir.

Birta vorsins sem eykst dag frá degi, gefur hlýju í sálina, svo ekki sé minnst á það að fá hund í heimsókn öðru hverju, ekkert er eins heimilislegt fyrir mig bóndadóttur úr sveit.

Það styttist í sauðburðinn og þá tekur við törn hjá bændum hér í kring um mig, eðli máls samkvæmt.

Öðru hvoru finn ég ekta fjósalykt sem fyrir mig er eins og ilmvatn minninga úr bernskunni.

Blessaður jökullinn minn er alltaf jafn fallegur hér við hliðina á mér og fjöllin allt um kring, svo ekki sé minnst á Eyjar í sjónmáli.

Bíð eftir því að sjá Tjaldinn sem fyrir mig er alltaf vorboðinn, ásamt Lóu, Spóa og Hrossagauk, og Kríu,  sem saman spila sinfóníu vors og sumars að öðrum fuglum ólöstuðum.

 

Veröldin er full af ýmsu, fagurlega gerðu,

ef að aðeins örlítið af tíma þínum verðu.

Til að líta kring um þig og sjá það sem að er,

finnur þú að fegurðin, fylgir alltaf þér.

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband