Sunnudagspistill.

Ekki hefði mér dottið það í hug fyrir nokkrum árum síðan að ég ætti eftir að flytja úr borgarsamfélaginu austur í sveit á Suðurlandi, þar sem ég hef Jökulinn minn Eyjafjallajökul fyrir sjónum hvern dag, líkt og í gamla daga í uppvextinum undir Eyjafjöllum, en nú úr annarri átt úr Fljótshlíðinni en alltaf jafn magnaður og fallegur.

Ég elska íslensku sveitina með öllum sínum töframætti frá kyrrðinni til notalegra hljóða í dráttarvélum á ferð til verka og búsmala allt í kring.

Virðing mín fyrir bændum hefur alla tíð verið alger þar sem starf bóndans er ekki einungis við það að lifa af landinu heldur einnig ræktun og viðhald í hendur komandi kynslóða svo sem best má vera.

Frelsið sem var í því fólgið að fá að alast upp sem barn í íslenskri sveit er eitthvað sem ég tel að maður búi lengi að en jafnframt því atriði að venjast því að þurfa að leysa þau verkefni sem þurfti að leysa heima fyrir með eigin aðferðum, mixa og laga, og almennt bjarga sér með sem flesta hluti, þar sem ekki var hlaupið eftir öllu í kaupstaðinn.

Ákveðin sjálfsbjargarviðleitni er af hinu góða að ég tel.

Veturinn hefur verið sérstakur hér sunnanlands ef vetur skal kalla því hlýindi og snjóleysi virðist skipta landinu í tvö hitasvæði þetta árið.

Og enn á ný er spá um hlýindi hér sunnanlands í næstu viku, en spurningin er, verður vorið svo kalt í staðinn og þurrt sumar eins og síðasta sumar ?

Hver veit !

Kemur í ljós.

 

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband