40 ár frá gosinu á Heimaey.
Miðvikudagur, 23. janúar 2013
Mér verður oft hugsað til þess þegar ég baka pönnukökur að pannan hennar ömmu heitinnar sem pabbi fór að sækja út í Eyjar í gosinu er nú enn þann dag í dag í notkun hjá mér.
Bæði amma og afi bjuggu í Eyjum þegar þessi atburður átti sér stað en amma var í íbúð sinni á Urðarstígnum en afi var á elliheimilinu.
Amma fór með bát í Þorlákshöfn um nóttina en afi með flugi til Reykjavíkur um morguninn.
Frændgarður minn í Vestmannaeyjum er stór þar sem samgangur undan Eyjafjöllum út í Eyjar hefur löngum verið mikill.
Í kjölfar þessa kom amma til okkar austur undir Eyjafjöll, og víða á bæjum fjölgaði fóki sem flúði hamfarir i Eyjum um tíma.
Tvær Eyjastúlkur fermdust með mér þetta ár, annars hefði ég verið ein í þessum mínum árgangi í minni sveit.
Fyrsta upplifunin af gosinu var sú að skólabíllinn kom ekki þar sem hann var á leið í Þorlákshöfn til að flytja fólk og það kom skömmu síðar í ljós um leið og farið var að hlýða á útvarp.
Um morguninn voru drunur það miklar að fé á túni fyrir framan bæinn heima var á hreyfingu og hlaupum.
Mömmu dreymdi draum sem hún túlkaði á þann veg að höfnin í Eyjum myndi bjargast og það varð raunin þótt sannarlega liti það ekki vel út um tíma með það hið sama atriði.
Þrautseigja og dugnaður Vestmanneyjinga er mikill og það atriði hve fljótt og hve vel tókst að hreinsa Heimaey að loknu gosi og hve margir fluttu til baka sem þó höfðu misst allt sitt er og verður sérstakur hluti af þjóðarsögu okkar Íslendinga að mínu áliti.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.