" Hin umbeðna gerð má fara fram "

Þetta eru dómsorð í dómi Héraðsdóms Reykjaness í morgun, en ég fékk tölvupóst klukkan 11.47, um að ég gæti mætt í dómshald klukkan 11.45, sama dag til að hlýða á niðurstöðu, sem eðli máls samkvæmt var nú ekki hægt þannig að ég fékk dóminn sendan í tölvupósti skömmu seinna.

Dómur þessi er sérstakur fyrir þær sakir að hér tekst stjórnvaldi í þessu tilviki Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar að setja fram beiðni fyrir dómstól um löggerning þ.e. riftun samnings við mig, þótt ég hefði engan gildan samning sem væri hægt að rifta, vegna þess að slikum hafði áður verið rift.

Þessi málaleitan Húsnæðiskrifstofu Hafnarfjarðarbæjar þýddi kostnaðarauka sem nemur 280 þúsund krónum, sem hefði verið hægt að forða með einu símtali þess efnis að óska eftir þvi að ég færi úr íbúð þessari ellegar með bréfi þess efnis.

Dómur sá sem kveðin var upp í þessu máli er þessi.

"

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 2. október 2012 í máli nr. A-119/2012:
Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar
(Þórdís Bjarnadóttir hrl.)
gegn
Guðrúnu Maríu Óskarsdóttur

Umrædd aðfararbeiðni barst héraðsdómi 18. júní 2012. Beiðnin var tekin fyrir 16. júlí síðastliðinn og var þá mætt af hálfu gerðarþola. Þann dag var málinu frestað til 10. september síðastliðinn, í því skyni að gerðarþoli gæti skilað greinargerð í málinu. Þegar beiðnin var svo aftur tekin fyrir á dómþingi 10. september síðastliðinn var að nýju mætt af hálfu gerðarþola og skilaði gerðarþoli greinargerð. Að svo búnu tjáðu aðilar sig um málið og var það því næst tekið til úrskurðar. Gerðar­­beiðandi er Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar, kt. […], Strandgötu 11, Hafnarfirði. Gerðarþoli er Guðrún María Óskarsdóttir, kt. […], Berjahlíð 1, Hafnarfirði.

I.
Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðarþoli verði, ásamt öllu því sem honum tilheyrir, borinn út úr íbúð merkt 03 01 að Berjahlíð 1, fastanúmer 223-1394, Hafnarfirði, með beinni aðfarargerð. Auk þess krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, ásamt því að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.
Gerðarþoli krefst þess að málinu verði vísað frá dómi.

II.
Málsatvikum er lýst svo í aðfararbeiðni að gerðarþoli leigi framan­greinda íbúð af gerðarbeiðanda. Þann 1. júlí 2011 hafi gerðarþoli tekið íbúðina á leigu. Samkvæmt samningnum hafi leigutími hafist 1. júlí 2011. Sam­kvæmt ákvæðum 3. gr. samningsins megi beita öllum venjulegum úrræðum til að knýja fram efndir, meðal annars ákvæðum húsaleigusamnings, yrðu vanefndir af hálfu annars hvor samnings­aðila á samningnum. Þann 31. janúar 2012 hafi Húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðar sent gerðarþola lokaaðvörun þar sem skorað hafi verið á gerðarþola að greiða húsaleigu­skuld fyrir 10. febrúar 2012, að öðrum kosti yrði innheimta falin lögmanni og leigu­samningi rift vegna vanskila. Þann 29. maí 2012 hafi lögmaður sent gerðarþola greiðsluáskorun, sem birt hafi verið fyrir honum 31. maí 2012, þar sem skorað hafi verið á hann að greiða ofangreinda húsaleiguskuld innan tíu sólarhringa frá móttöku greiðsluáskorunarinnar, að öðrum kosti yrði húsaleigusamningi rift án frekari fyrir­vara. Gerðarþoli hafi ekki sinnt þessari áskorun og sé gerðarbeiðanda því nauðsynlegt að leggja fram beiðni þessa. Gerðarbeiðandi hafi þegar sent gerðarþola tilkynningu um riftun samningsins.
Gerðarbeiðandi kveður útburðarkröfu þessa byggja á því að framangreindum leigusamningi hafi verið rift vegna vanefnda leigutaka á leigugreiðslum. Um lagarök er vísað til 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 og 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Krafan um málskostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafan um virðisauka­skatt byggist á því að gerðarbeiðandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsyn að áhrifa hans sé gætt við ákvörðun málskostnaðar. Gerðarbeiðandi kveður gerðina fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.

III.
Í framlagðri greinargerð gerðarþola kemur fram að gerðarþoli hafi lagt fyrir dóminn frumrit af síðasta húsaleigusamningi sem gerðarþoli hafi undirritað vegna leigu á framangreindri íbúð. Sá samningur sé dagsettur 21. júlí 2009, en þeim samningi hafi verið rift fyrir Héraðsdómi Reykjaness 7. janúar 2010. Gerðarþoli kveðst engan annan húsaleigusamning hafa undirritað síðan þá.
Þá kveður gerðarþoli „tilraunir fulltrúa Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar með fulltingi lögmanns, þess efnis að leggja fram afrit af pappírum til riftunar, í fyrsta lagi án undirskriftar minnar til dóms og í öðru lagi skannað afrit við dómshald 16. júlí sl.“ stangast á við 8. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, þar sem segir að allar breytingar á leigusamningi eða viðbætur skulu gerðar skriflegar og undirritaðar af aðilum samningsins. Einnig vísar gerðarþoli til 31. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, en ákvæðið fjallar um misneytingu, og laga um aðför nr. 90/1989, nánar tiltekið 10. og 96. gr.
Gerðarþoli segir jafnframt að gerðarbeiðanda hafi átt að vera fullljóst að enginn húsaleigusamningur væri fyrir hendi til að rifta með tilheyrandi „kostnaðarþóknun“ til handa lögmanni gerðarbeiðanda, eða 200.000 krónum. Gerðar­beiðandi hafi einungis þurft að senda eitt bréf með ósk um að gerðarþoli færi úr íbúðinni án aðkomu lögmanns og frekari „kostnaðartilbúningi“ við málið. Þá kveðst gerðarþoli hafa lagt fram stjórnsýslukæru. Gerðarþoli kveðst krefjast frávísunar málsins vegna vanreifunar á málatilbúnaði gerðarbeiðanda.

IV.
Með umræddri gerðarbeiðni fylgdi afrit leigusamnings, dags. 9. febrúar 2012, um leigu íbúðarinnar að Berjahlíð 1 í Hafnarfirði, frá 1. júlí 2011 til 30. júní 2012. Það afrit er í samræmi við lýsingu gerðarbeiðanda á atvikum málsins í aðfararbeiðni, en þó er einungis undirskrift gerðarbeiðanda á afritinu. Í þing­haldi 16. júlí síðastliðinn kvaðst gerðarþoli ekki kannast við samninginn. Í þinghaldi 10. september síðastliðinn lagði gerðarbeiðandi fram frumrit leigusamnings milli aðila, dags. 12. febrúar, og er samningurinn tímabundinn frá 1. febrúar 2010 til 31. júlí 2010. Sá samningur ber með sér að vera undirritað af báðum aðilum málsins, en gerðarþoli kveður undirskrift sína falsaða þótt um sé að ræða sömu rithönd og á öðrum skjölum í málinu, s.s. greinargerð gerðarþola. Í þinghaldi 10. september síðastliðinn viðurkenndi gerðarþoli hins vegar að búa í íbúðinni og skulda húsaleigu.

Gerðarþoli hefur ekki sýnt fram á að 31. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í máli þessu. Þá er að mati dómsins ekki ástæða til að vísa máli þessu frá þótt gerðarbeiðandi hafi lagt fram óundirritaðan leigusamning með aðfararbeiðni sinni, enda hafa verið lögð fram frekari gögn í málinu og gerðarþoli hefur viðurkennt að skulda húsaleigu. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan verður að líta svo á að leigusamningur sem gerðarbeiðandi lagði fram í þinghaldi 10. september síðastliðinn liggi til grundvallar samningssambandi aðila og að samningurinn hafi framlengst ótímabundið samkvæmt 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, þar sem gerðarþoli hélt áfram að hagnýta hið leigða húsnæði. Að þessu virtu og með vísan til þess að óumdeilt er að gerðarþoli skuldar húsaleigu og gerðarbeiðandi hefur lýst yfir riftun á leigusamningi aðila, að undangenginni greiðsluáskorun, á gerðarþoli að svo komnu engan rétt til umráða yfir hús­næðinu. Skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 eru því fyrir hendi og ber að taka til greina kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð.
Með hliðsjón af greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á gerðarbeiðandi rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfi­lega ákveðinn 80.000 krónur.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.


ÚRSKURÐARORÐ

Hin umbeðna gerð má fara fram.
Gerðarþoli, Guðrún María Óskarsdóttir, greiði gerðarbeiðanda, Húsnæðisskrifstofu Hafnarfjarðar, 80.000 krónur í málskostnað.

Sandra Baldvinsdóttir "

kv.Guðrún María.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband