Um daginn og veginn.

Það er skammt stórra högga á milli í veðurfarinu hjá okkur, búið að vera óvenjuhlýir haustmánuðir, en síðan skellur á hörkuvetur allt í einu.

Snjórinn gefur okkur hins vegar birtu á þessum dimmasta tíma sem er ágætt, en allt er gott í hófi og meðan ekki er allt á kafi þá þarf maður víst ekki að kvarta yfir því hinu sama.

Sjálf reyni ég að njóta þess að gera jólalegt í kring um mig eftir efnum og aðstæðum.

Alla vega er ég ekki með gifs á hendinni núna þetta árið eins og á sama tíma í fyrra, bakið segir mér hins vegar fyrir verkum hvað ég get og hvað ekki hverju sinni og svo má illu venjast að gott þyki segir máltækið og vonandi getur maður haldið sig við það hið sama viðhorf, þar sem annað er ekki í boði.

Það er hins vegar slæmt að komast ekki út að ganga daglega vegna þess að göngustígar eru lítið ruddir og ég get ekki farið langt í snjógöngu upp á kálfa.

Hef hins vegar himinn höndum tekið við að prjóna úr íslensku ullinni sem ég hefi lengi elskað og litið á sem gull frá því ég var ung að árum við að týna ullarlagða um túnin heima undir Fjöllunum.

Ég er svo heppin að eiga ennþá ullarværðarvoð sem ég fékk í fermingargjöf og ég sef með hana næst mér, sem minnkar verki vegna þess hve mikill hitagjafi ullin er.

Sama má segja um það að nota ullartrefil um hálsinn þegar kvef og pestir sækja að, óbrigðult ráð til bóta.

Það skiptir máli að klæða af sér kuldann.

kv.Guðrún María.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband