Hvað er grunnþjónusta við heilbrigði og hvað ekki ?

Ráðherra heilbrigðismála sat fyrir svörum í Kastljósi kvöldsins varðandi kostnaðarþáttöku sjúklinga, þar sem meðal annars var rætt um komugjöld sjúklinga sem lítið hefur verið rætt um en sannarlega hafa aukist, þar sem sjúklingar eru sendir fyrr heim og endurkoma vegna sama vandamáls eigi að síður til staðar oft og iðulega.

Sjálf hefi ég að hluta til verið verkefni heilbrigðiskerfis frá því ég slasaðist í byrjun nóvember i fyrra en ef ég hefði ekki fengið með mér samstarfskonu mína í sjúkrabílnum upp á spitala þá hefði ég verið send heim handleggsbrotin þar sem ekki átti að taka mynd af hendinni og ég þá þurft að borga komugjald að nýju.

Vegna þess að fyrsta myndataka af samfallsbroti í hrygg var ekki nógu góð þurfti að endurtaka myndatökuna af hryggnum en þá krafðist samstarfskona mín þess að tekin væri einnig mynd af hendinni sem var gert og úlnliðsbrot kom í ljós og ég var sett í gifs.

Nú síðla sumars kom í ljós að blóðþrýstingur hafði hækkað hjá mér en fyrir hendi var vægur háþrýstingur, og sjúkraþjálfarinn minn mældi mig of háa, næsta dag fór ég í apótek og mældist einnig of há. Ég hringdi þá á mína heilsugæslu og var sagt að koma í mælingu þar sem ég greiddi komugjald í þá hina sömu mælingu.

Hjúkrunarfræðingur sá sem mældi mig sagði mig þurfa að koma að minnsta kosti þrisvar á heilsugæslustöð í mælingu áður en eitthvað yrði gert og ég spurði hvort ég þyrfti þá að greiða komugjald í hvert skipti og hún kvað svo vera.

Það varð þó ekki því ég fékk tíma hjá heimilislækni eftir helgina sem skipti strax um lyf hjá mér, en auðvitað borgaði ég komugjald til hans.

Í raun og veru borga sjúklingar komugjöld hægri vinstri í voru kerfi fram og til baka sem aftur ekki skýrir þann sparnað sem á að vera af því að flýta útskrift af sjúkrastofnunum að mínu viti og það er stórþarft mál að fara nánar ofan í saumana á því hinu sama.

Jafnframt þarf að ræða hvað er grunnþjónusta og hvað ekki og hve mikill hluti af sérfræðiþjónustu er hluti af grunnþjónustu með samningum þar að lútandi.

Flatur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er heimskuleg aðferð þar sem við höfum haft allan þann tíma til þess að skoða og ígrunda þá þætti þjónustu sem er nauðsyn og þeirrar sem getur hugsanlega minnkað timabundið í þrengingum efnahagslega hér á landi.

kv.Guðrún María.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband