Hugleiðing á föstudaginn langa.
Föstudagur, 22. apríl 2011
Leiðir mannsins við hina endalausu leit að " hamingjunni " og hinum fullkomna tilgangi lífsins, taka á stundum á sig krókavegi þar sem kerfi þau sem maðurinn hefur búið til virka ekki sem skyldi hvers eðlis sem eru.
Hvaða réttlæti er til að dreifa í því efni að kerfi mannsins skattleggi fólk sem þiggur laun á vinnumarkaði undir fátæktarmörkum þeim sem kerfið sjálft skilgreinir sem slíkt ?
Ef svo er komið að starfandi fyrirtæki á vinnumarkaði hvort sem um er að ræða hið opinbera eða einkafyrirtæki geti ekki greitt laun sem nægja til framfærslu í einu samfélagi, þarf þá ekki að skoða forsendur þær sem liggja til grundvallar því hinu sama ?
Við getum hrópað hátt og hneykslast yfir mannréttindabrotum annars staðar í heiminum en virðumst ekki sjá þau sem liggja þó, við fætur okkar hér heima.
Hví skyldu meðbræður okkar í einu samfélagi þurfa að ganga píslargöngu vegna fátæktar meðan hluti þegnanna fleytir rjómann ofan af tekjulega, einhverra hluta vegna ?
Við eigum í raun að geta verið þess umkomin að skipta þjóðarkökunni betur en við höfum gert til þessa og réttlátt skattkerfi jöfnuðar millum einstaklinga og fyrirtækja, ásamt hóflegum ríkisumsvifum í samfélaginu er eitthvað sem hlýtur að vera markmiðið.
Við þurfum að skilja hismið frá kjarnanum og vega og meta vorn flókna heim og einfalda það sem þarf á réttum stöðum í stað þess að fljóta með straumnum.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heil og sæl Guðrún María og gleðilegt sumar. Þetta er góður pistill hjá þér, ég tek undir hvert orð sem þú skrifar þarna.
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 23.4.2011 kl. 12:34
Sæll Sigmar.
Takk fyrir það og gleðilegt sumar til þín.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 23.4.2011 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.