Ár frá gosi í Eyjafjallajökli.
Föstudagur, 15. apríl 2011
Varla er hægt að lýsa öllu því tilfinningaflóði sem bærðist innra með manni varðandi það atriði að horfa á æskuslóðirnar í fjötrum hamfara þeirra sem eldgos í Eyjafjallajökli kallaði yfir nágrennið.
Mér fannst nú nóg um gos í Heklu í uppvextinum svo ekki sé minnst á Surtsey og síðar Vestmannaeyjagosið sem seint líður úr minni þvi þar flúði amma upp á land til okkar undir Fjöllin.
Ég hafði hins vegar ung lesið mér til um það að jökullinn væri virkt eldfjall og einnig las ég um Kötlugos fram og til baka sem ekki varð til þess að minnka óttablandna virðingu mína fyrir náttúruöflunum.
Ég horfði á gosið i vefmyndavélum tímunum saman en kom ekki austur fyrr en um sumarið í júli og þá fannst mér það ótrúlegt hve gróður jarðar var lífseigur að koma til eftir þessi ósköp sem þarna áttu sér stað, á láglendi en ofar var allt svart.
Gegnum tíðina sótti ég stundum mína orku í sveitina og sat við eldhúsgluggann og horfði á jökulinn minn, þennan fallega jökul sem var svo friðsæll lengst af sem kóngur yfir byggðinni, en alltaf dreymdi mig gos og gos í jöklinum upp allan aldur sem ég alltaf taldi vera vegna hræðslu við hið sama. Síðasti draumurinn fyrir gos var samt þannig að mér fannst að eitthvað myndi gerast þarna.
Og það gerðist með því móti sem manni hefði seint órað fyrir að slíkir kraftar skyldu sýnilegir í móður náttúru, manni til handa.
Æðruleysi íbúa var og er aðdáunarvert en seint mun bætt allt það tjón sem þarna varð af völdum þessara hamfara .
Sveitin mín mun rísa upp úr öskustónni og jökullinn jafna sig eftir þennan hamagang og áfram verða prýði í íslenskri sveit á Suðurlandi.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.