Helstu atriði Icesavesamnings, fylgiskjal V.
Þriðjudagur, 1. mars 2011
Set hér inn lesefni um Icesavesamning þann sem fer í dóm þjóðar 9.apríl, en þar er um að ræða umsögn Fjárlagaskrifstofu, fylgiskjal V.
" Fylgiskjal V.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.
Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að staðfesta samninga sem áritaðir voru af fulltrúum Íslands, Bretlands og Hollands í London 8. desember 2010. Samkomulagið gerir ráð fyrir að ríkissjóður ábyrgist annars vegar endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) til breska og hollenska ríkisins á þeim fjárhæðum sem þau hafa lagt út vegna uppgjörs lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og hins vegar greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Í því felst að TIF fær framseldar kröfur Breta og Hollendinga í bú bankans og annast um að innheimta þær. Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn endurgreiði kröfurnar jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búinu.
Fram til júnímánaðar 2016 verða greiddir vextir af þeim höfuðstól sem er umfram útborganir úr búi Landsbankans á hverjum tíma. Ekki verður greitt upp í höfuðstól með öðru en því sem fæst greitt við slitameðferð bankans. Gert er ráð fyrir því að í júní 2016 verði búið að úthluta stærstum hluta af eignum bús Landsbankans til kröfuhafa. Frá þeim tíma skuldbinda TIF og íslenska ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum krafna með ákveðnum fyrirvörum og eftir nánar umsömdum viðmiðum. Ekki er því um að ræða hefðbundna lánssamninga heldur endurgreiðslu- og skaðleysissamninga með aðild hlutaðeigandi ríkja og TIF.
Í samningunum er gert ráð fyrir föstum vöxtum af kröfum umfram endurheimtur fram á mitt ár 2016. Vextirnir eru 3% á hollenska hluta skuldbindinganna en 3,3% á breska hlutanum. Meðalvextir eru því 3,2% þar sem breski hlutinn vegur 2/3 heildarskuldbindingarinnar. Samið hefur verið um að engir vextir skuli reiknast á skuldbindingarnar fyrr en eftir 1. október 2009 og að áfallnir vextir fyrir árin 2009 og 2010 verði greiddir í ársbyrjun 2011.
Vextir verði síðan greiddir ársfjórðungslega til miðs árs 2016. Þá er kveðið á um það í samningnum að vextir á þær eftirstöðvar sem kunna að vera ógreiddar um mitt ár 2016 verði svonefndir CIRR-vextir, eða útflutningslánavextir sem reiknaðir eru og birtir af OECD, án nokkurs vaxtaálags. Lágmarkstrygging við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi er metin á 2,350 milljarða punda og á 1,329 milljarða evra í Hollandi. Það jafngildir samtals 674 milljörðum króna miðað við sölugengi gjaldmiðlanna 22. apríl 2009 en kröfurnar í bú bankans voru miðaðar við gengi þann dag. Miðað við gengi krónunnar 30. september 2010 nemur sú skuldbinding allt að 624 milljörðum króna og hefur lækkað vegna styrkingar krónunnar síðastliðin missiri. Skilanefnd bankans telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar 9. nóvember 2010 að úthlutun upp í forgangskröfur muni nema 86%. Heildarforgangskröfur nema 1.320 milljörðum króna, en heimtur eru áætlaðar 1.138 milljarðar. Forgangskröfur TIF í bú Landsbankans á gengi íslensku krónunnar miðað við 22. apríl 2009 eru áætlaðar geta numið allt að 673 milljörðum króna að höfuðstól. Við þá fjárhæð bætast áfallnir vextir. Gert er ráð fyrir að í hlut TIF komi ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 584 milljörðum króna miðað við gengi 30. september 2010.
Mat sem gert hefur verið á vegum samninganefndarinnar á kostnaði sem fellur á ríkissjóð miðað við framangreindar forsendur er 47 milljarðar króna, eða rúm 3% af landsframleiðslu. Er þá tekið tillit til þess að búið væri að ráðstafa um 20 milljörðum króna af núverandi eigum TIF upp í skuldbindingarnar. Framangreind niðurstaða felur í sér að gangi endurheimtur eftir með þessum hætti og gengisþróun verður eins og spáð er í forsendum Seðlabankans verði það eingöngu vaxtakostnaður sem falli á ríkissjóð. Til greiðslu í byrjun næsta árs kæmu uppsafnaðir vextir áranna 20092010, alls 26 milljarðar króna, þar af 6,1 milljarður króna úr ríkissjóði. Vaxtagreiðslur vegna ársins 2011 eru áætlaðar um 17 milljarðar króna og færu hratt lækkandi árin þar á eftir og verði 5 milljarðar króna árið 2015. Áætlanir gera ráð fyrir að greiðslum verði að fullu lokið 2016 og að vaxtagreiðslur það ár verði 2 milljarðar króna.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að þak sé sett á árlegar greiðslur úr ríkissjóði eftir 2016 og er miðað við 5% af tekjum ríkisins á næstliðnu ári. Komi til þess að sú fjárhæð, sem það hlutfall ríkistekna jafngildir, verði lægri en 1,3% af landsframleiðslu skal hámark endurgreiðslna miðast við það hlutfall landsframleiðslunnar Það jafngildir nú rúmlega 20 milljörðum króna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ef höfuðstóll eftirstöðva af skuldbindingu TIF verður hærri en sem nemur 45 milljörðum króna greiðast þær að fullu innan 12 mánaða, þ.e. síðari hluta árs 2016 og fyrri hluta árs 2017. Fari svo að skuldbindingin verði hærri, lengist endurgreiðslutíminn um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða króna, þó þannig að sú fjárhæð sem eftir stæði yrði greidd í lok 30 ára endurgreiðslutíma frá 2016 að telja.
Stærstu áhættuþættir fyrir ríkissjóð vegna samkomulagsins eru annars vegar hversu mikið TIF mun fá úthlutað upp í sínar kröfur úr búi Landsbanka Íslands hf. og hins vegar gengisáhætta. Við áætlun á líklegri skuldbindingu hefur samninganefndin byggt á upplýsingum skilanefndar Landsbankans. Jafnframt er byggt á vinnugögnum frá Landsbanka Íslands um fjárhæð þeirra krafna sem framseldar verða á grundvelli endurgreiðslusamninganna. Þá hefur verið lagt varfærið mat á nettótekjur vegna eigna Landsbanka Íslands til 2016. Eins og áður hefur verið nefnt er gert ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna samninganna verði 47 milljarðar króna og að engar eftirstöðvar falli á ríkissjóð árið 2016. Þessi niðurstaða byggist á mati og gæti útkoman orðið betri eða verri eftir því hvernig helstu forsendur þróast. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu gæti skuldbinding ríkissjóðs sveiflast frá því að lækka í allt að 12 milljarða króna og í að hækka í allt að 113 milljarða króna þegar reiknað er með mismunandi forsendum um endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans.
Veiking krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum mundi hafa þau áhrif að skuldbindingar ríkissjóðs hækka í krónum talið. Það stafar annars vegar af því að hluti endurheimta úr búi Landsbankans er í íslenskum krónum og hins vegar af því að vaxtagreiðslur eiga sér stað yfir nokkurra ára tímabil í evrum og pundum. Veiking krónunnar hefur því þau áhrif að endurheimtur duga skemur í afborganir og vaxtagreiðslur þar eð þær verða hærri í krónum talið. Gengisspá Seðlabankans sem lögð er til grundvallar miðast við að gengi krónunnar styrkist nokkuð gagnvart evru og pundi til næsta árs, eða um 67%, en styrkist síðan aðeins lítillega eða haldist óbreytt til ársins 2016. Árleg veiking krónunnar frá 2011 til og með 2016 sem næmi 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans mundi hækka skuldbindinguna um 18% eða úr 47 milljörðum króna í 56 milljarða króna. Árleg 3% styrking krónunnar á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans mundi á hinn bóginn lækka skuldbindinguna um 15% eða úr 47 milljörðum króna í 40 milljarða króna. Auk þessa er gjaldeyrisáhætta sem stafar af því að skuldbinding ríkissjóðs er eingöngu í evrum og sterlingspundum en eignir bús Landsbankans eru í evrum, sterlingspundum, bandaríkjadölum, kanadadölum og öðrum gjaldmiðlum. Minnsta áhættan er tengd þróun evrunnar því hlutfall eigna Landsbankans í evrum er svipað og hlutfall skuldbindingarinnar í evrum. Áhættan stafar því aðallega af því ójafnvægi sem er til staðar milli skulda í sterlingspundum annars vegar og eigna Landsbankans í öðrum gjaldmiðlum hins vegar. Árleg veiking sterlingspunds frá 2011 til og með 2016 sem nemur 3% umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans lækkar skuldbindinguna um 52% eða úr 47 milljörðum króna í 23 milljarða króna. Árleg 3% styrking sterlingspunds á sama tímabili umfram reikniforsendur Seðlabankans hækkar skuldbindinguna um 62% eða úr 47 milljörðum króna í 77 milljarða króna. Það er því ljóst að þróun sterlingspunds gagnvart öðrum gjaldmiðlum hefur áhrif á skuldbindingu ríkissjóðs og meiri áhrif en þróun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
Úrlausn ágreiningsmála er upp kunna að koma vegna samningsins heyra undir regluverk Alþjóðagerðardómstólsins í Haag. Færi svo að máli vegna samninganna yrði vísað til hans mundu aðilar tilnefna hvor sinn fulltrúann og fulltrúarnir síðan koma sér saman um oddamann. Þannig er tryggt að í málum er varða Ísland sitji ávallt aðili í gerðardóminum sem tilnefndur er af Íslandi. Í samningsdrögunum er auk þess ákvæði um samráð aðila gefi efnahagsleg staða á Íslandi tilefni til. Skýrt er tekið fram að ákvæði um takmörkun friðhelgisréttinda hafi engin áhrif á eignir ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband, þær eignir á Íslandi sem nauðsynlegar eru fyrir Ísland sem fullvalda ríki, eigur Seðlabanka Íslands eða náttúruauðlindir landsins.
Hér hafa verið dregin saman helstu atriði samninganna og mat samninganefndarinnar á þeim. Fjárlagaskrifstofa hefur ekki lagt sjálfstætt mat á þetta umfangsmikla mál né framkvæmt sérstaka útreikninga á líklegum áhrifum samninganna á skuldbindingar og útgjöld ríkissjóðs á næstu árum. Ef miðað er við það mat sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs á næsta ári vegna framlaga til TIF verði samtals 26,1 milljarður króna, þ.e. 6,1 milljarður króna vegna gjaldfallinna vaxta áranna 20092010 og 17 milljarðar króna vegna vaxta á árinu 2011. Þessu til viðbótar er 3 milljarða króna greiðsla á næsta ári vegna útlagðs kostnaðar Breta og Hollendinga við útgreiðslur til innstæðueigenda á sínum tíma en samið var um tiltekna hlutdeild í honum.
Ekki hefur verið gert ráð fyrir áhrifum af þessum samningi í fjárreiðum ríkisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 enda hefur Alþingi á þessu stigi ekki fjallað um og afgreitt frumvarp til laga um staðfestingu samninganna sem hér eru til umfjöllunar. Kann því að reynast nauðsynlegt að leita eftir nauðsynlegum fjárheimildum frá Alþingi vegna málsins í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps. "
Vonandi til fróðleiks fyrir einhvern.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.