Um daginn og veginn.

Þetta ár hefur verið sérstakt fyrir margra hluta sakir, ekki hvað síst lífsbaráttunnar þ.e. að reyna að standa sjóinn í því efni, hvað sem á dynur.

Allt gengur upp og niður sitt á hvað, svo er og verður vissulega í okkar vegferð á lífsgöngunni, en mismikið eftir efnum og ástæðum hverju sinni en alltaf verður maður að halda í vonina um betri tíð með blóm í haga, einn góðan veðurdag.

Síðustu þrír fjármálaráðherrar þjóðarinnar hafa ekki öðlast sýn á það að of miklir skattar séu lagðir á láglaunamenn í okkar þjóðfélagi, frekar en verkalýðshreyfingin hefur gert sér grein fyrir því að samið hafi verið um of lág laun í samræmi við skattöku.

Eftir fjármálahrunið var gefið út veiðileyfi á skattgreiðendur sem aldrei fyrr, þar sem gjaldtaka hins opinbera náði nýjum hæðum, og til dæmis kostar það nú eitt þúsund krónur að fá staðfest skattaframtal frá skattayfirvöldum sem annað stjórnsýslustig hins opinbera óskar eftir til tekjumats vegna húsaleigubóta.

Það er ekki öll vitleysan eins, heldur aðeins mismunandi.

Venjuleg illindi og erjur í stjórnmálum hafa einkum verið innan stjórnarflokkanna enda seldi annar flokkurinn sín sjónarmið mestmegnis fyrir stólasetu í fyrstu " vinstri stjórn " um langan tíma.

Stórkostlegt forystuleysi einkennir þessa ríkisstjórn þar sem flest allt hefur verið með rangri forgangsröðun sem mögulegt má vera, og alls konar sjónleikjaspil og skotgrafahernaður þess efnis að benda á aðra flokka sem miklu verri en þá sjálfa, hefur átt að heita pólitík eins barnalegt og það nú er.

Jafnframt hefur aðferðin " einn var að smíða austutetur... annar hjá honum sat ... þriðji kom og bætti um betur .... og boraði á hana gat.... " verið nokkuð viðvarandi þar sem ráðstafanir í skuldamálum eftir hrun hafa þýtt handahófskennda aðferðafræði þar sem eftir mótmælin miklu á Austurvelli síðast skyldi " öllum komið í skjól " hjá Umboðsmanni skuldara..... ásamt tveggja ára gjaldþrotalögum og svo hvað.... ?

Verðtrygging er enn í gildi og vísitöluvitleysa öll í því sambandi, en menn þora ekki að ráðast að rót vandans frekar en fyrri daginn hér á landi, og stunda þess í stað smáskammtalækningar þ.e að setja plástur á bágtið sem gæti dugað svona fjögur ár sem er eitt kjörtímabil.

Að hluta til mætti halda að forystuflokkur í ríkisstjórn telji að sökum þess að tekist hafi að koma aðildarumsókn að Evrópusambandinu gegnum þingið, þá þurfi ekkert að stjórna landinu sem að vissu leyti má líkja við það viðhorf sem sá flokkur hefur haft frá upphafi varðandi skoðun á umdeildum málum í samfélaginu sem flokkurinn hefur alveg sleppt að setja fram, s.s varðandi kvótakerfið sem allsendis gengur nú illa að höndla við stjórnvölinn.

Það kemur hins vegar í ljós er fram líða tímar hvernig mönnum tekst til er verkin verða metin.

kv.Guðrún María.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband