Sannleikurinn mun gera yður frjálsan....
Sunnudagur, 18. júlí 2010
Hvarvetna í voru mannlega lífi er það svo að notkun sannleikans, er forsenda þess að sanngirni og heiðarleiki eigi sér stað manna millum og til verði traust.
Við erum það sem við erum hvort sem við erum rík eða fátæk, fræg eða óþekkt, fyrirtæki eða einstaklingar.
Veldur hver á heldur segir máltækið, en notkun sannleikans hefur farið hallandi í voru samfélagi sama hvert augað eygir, því miður.
Yfirsýn manna yfir eigin gjörðir hvort sem um er að ræða lagasetningu sem ramma frá hinu háa Alþingi og framkvæmdina í útfærslu, ellegar einstaklingshyggjuna þess efnis að komast kring um lögin sjálfum sér til handa án hugsunar um samfélag í heild, hefur verið á reiki.
Meðan lagasetning er þannig úr garði gjörð að hægt sé að viðhafa gerninga sem misbjóða siðferðisvitundinni, og það rúmast innan ramma laga þá er ekki við þá að sakast sem nýttu sér aðstæður sem slikar nema að hluta til, því lagasmiðirnir skyldu hafa skoðað málið frá upphafi til enda.
Sama máli gildir um samskipti manna, setjir þú ekki ramma fyrir þau hin sömu samskipti, þar sem forsenda trausts er byggð á sannleikanum, þá er hús samskiptanna byggt á sandi.
Orð Biblíunnar þess efnis að sannleikurinn geri yður frjálsan, frá því smæsta upp í það stærsta, eru og verða um aldur og æfi hyggindi okkur til handa, til uppbyggingar um heilbrigt samfélag.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.