Hinn íslenski vandamálafrumskógur.
Laugardagur, 30. janúar 2010
Hvernig má það vera að við Íslendingar skulum hafa getað búið til eins flókið og kostnaðarsamt stjórnkerfi og raun ber vitni gegnum tíð og tíma, stjórnkerfi sem oftar er ekki of flókið til þess að virka almennilega til þess að þjóna upphaflegum tilgangi og markmiðum ?
Ég tel að ástæða þessa sé meðal annars lagasetning, þar sem þingmenn hafa sett lög á lög ofan aftur í aldir, og til viðbótar við lögin, hefur komið reglugerðarheimild sitjandi ráðherra hverju sinni, þar sem bætt hefur verið um betur á lagaframkvæmdina og var þó nóg fyrir.
Á sínum tima eða árið 1997, kom það til dæmis í ljós að sjúklingar væru ótryggðir á einkastofum lækna úti í bæ, þrátt fyrir öll gildandi lög og heilmikla starfssemi þar að lútandi að hluta til niðurgreidda fyrir almannafé.
Hvers vegna kom þetta í ljós ?
Jú vegna gagnrýni hagsmunasamtaka sjúklinga er töldu farir sínar ekki sléttar og ræddu málin opinberlega er aftur varð til þess að ráðherra fól Ríkisendurskoðun að kanna málin og stofnunin fann við sína skoðun að allir sjúklingar utan sjúkrahúsa væru ótryggðir hér á landi sem aftur leiddi til þess að hið háa Alþingi varð að endurskoða sjúklingatryggingalöggjöfina.
Þetta dæmi er dæmi sem undirrituð þekkir vel vegna forsvars fyrir sjúklingasamtökin Lífsvog á þeim tíma en gagnrýnin skilaði því að draga fram annmarka sem hinu háa Alþingi virtist ekki hafa verið kunnugt um áður varðandi framkvæmd laga á einu málasviði.
EF þetta væri eina dæmið sem draga mætti fram um það að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gjörir í formi lagasetningar annars vegar og annmörkum á framkvæmd laga hins vegar, þá mætti ef til vill segja að mönnum hafi getað orðið á, en því miður er dæmin of mörg í framhaldinu og þar kemur að fjármálaumhverfi, viðskiptaumhverfi, og fl, og fl, og fl.
Fjarlægð sitjandi ráðamanna frá framkvæmd laga sem þeir hinir sömu setja, er og hefur verið mikil, sem aftur gerir það að verkum að menn eru í sífellu að stagbæta lög með reglugerðum, í stað þess að taka úr notkun ónýt lög og smíða ný er þola tímans tönn.
EES reglugerðarfrumskógurinn er eitthvað sem sitjandi alþingismenn, alveg sama hvar í flokkum standa hafa gegnum tíðina litið á sem plögg sem þurfi að koma gegnum Alþingi eins og lögmál sé um að ræða, burtséð frá því hvort hugsanlega hafi þurft að sækja um undanþágur varðandi hin ýmsu málasvið með þjóðarhagsmuni í huga.
Þar kemur til sama atriði að sitjandi þingmenn hafa ekki fylgt eftir sem skyldi að mínu viti hvernig framkvæmd og áhrif framkvæmda þess sem þeir hinir sömu samþykkja á þingi að gilda skuli, sé í raun. Það er ekki fyrr en að " barnið hefur dottið ofan í brunninn " að nefnd er sett á fót til að endurskoða, og önnur nefnd og sú þriðja sem alla kosta peninga á peninga ofan, til viðbótar við hið flókna stjórnkerfi sem enn er að framkvæma lögin og lagaumhverfið sem virkar illa eða ekki.
Með öðrum orðum, tíminn sem það tekur okkur Íslendinga að endurskoða það sem þarf að laga, er allt of langur en tíminn er jú peningar.
kv.Guðrún María.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.