Afturbatapíkur Samfylkingarinnar.

Smjörklípuaðferð iðnaðráðherra er árás á Frjálslynda flokkinn, eftir hrakför til útlanda. 

Það eru vissulega góð ráð dýr fyrir iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson nýkominn til landsins frá ferðalagi í Indónesíu þar sem vægast sagt illa tímasett för fyrirfram og ýmis konar endurskoðun ákvarðanatöku í orkumálum Reykvíkinga varð þess valdandi að ferð þessi mun verða skráð á spjöld sögunnar sem frumhlaup ráðamanna í ríkisstjórn.

Bloggskrif hans sem ég set hér inn bera þess vitni að hér er um smjörklípuaðferð að ræða.

"

Afturbatapíkur Frjálslyndra

Kristinn H. Gunnarsson er fimasti pólitíski dansarinn í Frjálslynda flokknum, og í fjarveru Jóns Magnússonar notaði hann tækifærið og gjörbreytti stefnu Frjálslyndra í málefnum útlendinga. Tilefnið gafst í umræðu um þingmál Paul Nikolovs, varaþingmanns Vinstri-Grænna, um réttindi útlendinga. Einsog allir muna fóru Frjálslyndir svo rækilega yfir strikið í umræðum um málefni útlendinga í kosningabaráttunni að þeir voru hvorki stofuhæfir né brúklegir til samstarfs á eftir. Málflutningur þeirra kallaði fram slíkt óbragð í munnum ýmissa á vinstri vængnum að þeir gengu í raun frá hinu skammlífa Kaffibandalagi steindauðu. Landslagið breyttist svo eftir kosningar, þegar ýmsir hinna vígreifustu á þessum vængnum urðu úti í hreggviðrum kosninganna, og biðu aldurtila í snjónum. Kiddi sleggja var hins vegar aldrei í þeim hópi sem fór á þann vænginn. Hann er bæði of snjall og of mikill jafnaðarmaður til að vilja daðra við þá sem þannig afla sér atkvæða. Hann skildi líka betur en flestir félaga sinna, að eftir að hafa skotist hratt upp í könnunum vegna athyglinnar sem orðræða þeirra um útlendinga vakti, þá yfirkeyrðu þeir svo gjörsamlega að þeir kafsigldu sig í öldurótinu sem hún vakti. Í dag hélt hann síðan ræðu, þar sem hann lofsöng framlag útlendinga til íslensks samfélags. Ég sat orðlaus undir ræðunni – slík var undrun mín. Kristinn sagði að menn ættu ekki að fjalla um útlendinga sem hóp, heldur meðhöndla þá sem einstaklinga. Í samhengi við það talaði þingmaðurinn sérstaklega um óbeit sína á því, að þegar fjölmiðlar fjalla um afbrot sem útlendingar fremja væri gjarnan tekið sérstaklega fram að þeir kæmu frá nafngreindu landi. Það taldi Kristinn H. Gunnarsson af og frá. Ég leyfði mér að taka til máls og lýsa ánægju minni með að Kristinn alþingismaður hefði í einni ræðu gjörbreytt stefnu Frjálslyndra. Grétar Mar Jónsson kvaddi sér þá hljóðs, tók undir allt sem Sleggjan hafði sagt, og sagði að útlendingaandúðinni hefði bara verið logið upp á Frjálslynda. Ég sá að Siv Friðleifsdóttir brosti brosi hins vantrúaða meðan hinir endurfæddu þingmenn Frjálslynda flokksins vitnuðu um útlendingagæsku hans. 

Ég sá hins vegar ekki Jón Magnússon í salnum, og reyndi að rifja upp hvaða þingmaður Frjálslyndra hefði viljað láta rannsaka sérstaklega sakavottorð útlendinga áður en þeim væri hleypt inn í landið.

Var það ekki Laxness sem talaði um afturbatapíkur?

 

 

Össur Skarphéðinsson
Skráð af Össur Skarphéðinsson
mið., 21 nóv. 2007 22:34
"
Ráðherra í ríkisstjórn landins ætti að vanda sig agnar ögn við málfarsnotkun með tilliti til virðingar gagnvart stjórnarandstöðu á þingi.
kv.gmaria.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband