Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Vor í augsýn.

Mikið lifandis skelfingar ósköp er maður nú fegin að fá ögn hlýrra veðurfar eftir óvenju leiðinlegan vetur hér sunnanlands.

Endalaust snjóbras og illviðri hefur einkennt þennan vetur, en ég er sennilega heppin að hafa komist klakklaust einu sinni í viku í höfuðborgina allan veturinn og ekki lent í lokunarveseni á heiðinni nema einu sinni fyrir stuttu síðan, í strætósamgöngum.

Að komast út að ganga án fimbulkulda ellegar illveðra er afar ánægjulegt sem og að horfa á jörðina lifna við og æ fleiri fugla fylla sinfóníuhljómsveit vorfuglanna hér við land.

Ég fagna vori og sumri.

 

kv.Guðrún María.

 

 

 

 

 


Um daginn og veginn.

Hef ekki verið mikið í pólítiskum vangaveltum nokkuð lengi , en... fékk einhvern pirring í mín bein er ég heyrði " væl " um fyrirhugaða gjaldtöku á makríl í frumvarpi til laga.

Raunin er sú að aldrei verður sátt um eitt eða neitt sem heitir breytingar í sjávarútvegi hér á landi en að sjálfsögðu skyldi þessi atvinnugrein greiða sanngjarnt gjald til samfélagsins líkt og önnur atvinnustarfssemi.

Það ER stjórnvalda á hverjum tíma að ákveða slíkt.

Kerfið sjálft er hins vegar þannig úr garði gert nú orðið að í raun er varla hægt að tala um að stórútgerðir og smábátasjómenn geti fallið undir sömu lögmál skipulagsins og langt síðan að kerfi þessu hefði þurft að skipta í tvennt.

 

Annað mál úr pólítikinni sem fréttir voru af í dag, pirraði mig líka.

Húsnæðisfrumvörp félagsmálaráðherra sem sannarlega eru eitthvað til þess að binda vonir við að greiði úr gífurlegum vanda fólks á leigumarkaði og komin eru fram, hefðu dagað uppi í fjármálaráðuneyti vegna kostnaðarmats.

Er það svo að þarna skilji virkilega á milli flokkanna tveggja í ríkisstjórn varðandi félagslegar áherslur í einu samfélagi ?

Ég vona ekki því verði ekkert að gert á húsnæðismarkaði þá er illa komið fyrir eitt samfélag.

Annars bíð ég eftir vorinu svo ekki sé minnst á sumarið sem maður leyfir sér að vona að verði okkur blítt þetta árið eftir hryssingslegt veðurfar á vetrarmánuðum.

kv.Guðrún María.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband