Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Skipulagsbreytinga er þörf, færa þarf verkefni bráðamóttöku víðar.

Allt of lengi hefur bráðamóttaka í Fossvogi verið að taka við allt of mörgum verkefnum að mínu álti, þar sem mun ódýrara væri að fjármagn væri nýtt til þess að manna vaktir á höfuðborgarsvæði og víðar um land til að sinna hluta verkefna sem mörg hver falla undir heilsugæslu eins og kemur fram í þessari frétt.

Vonandi færist bráðageðheilbrigðisþjónustu 24 tíma vakt á Hringbraut úr Fossvogi, öllum til heilla.

Vonandi mun heilsugæsla lúta skipulagsbreytingum sem gerir það að verkum að heilsugæslan almennt þjóni betur sínu hlutverki á höfuðborgarsvæðinu en verið hefur, með einni Læknavakt fyrir svæðið allt....

Sífellt endurmat þarf að vera í gangi á þessu sviði sem öðrum en oft er ákvarðanatakan um tilfærslu verkefna þung í vöfum, því miður.

 

kv.Guðrún María. 

 


mbl.is Mikið álag á bráðamóttöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi jól þessu sinni.

Fór að heimsækja son minn inn á sjúkrahús á aðfangadag jóla, það var indæl stund sem við mæðgin áttum saman.

Ók síðan austur yfir Hellisheiði og rétt slapp yfir heiðina, áður en hvessti til muna síðdegis og þakkaði mínum sæla að sleppa við það.

Fór síðan í jólaboð til fjölskyldunnar á Selfossi og tók upp pakka með yngstu fjölskyldumeðlimum sem var einnig afskaplega indæl stund þennan aðfangadag.

Friður jólanna fyllti hjartað þegar kirkjuklukkur hringdu klukkan sex eins og svo oft áður, þessi yndislegi friður kærleikans á aðfangadag.

Aldrei þessu vant var ég því ekki í eldhúsinu í kafi að elda jólamat, og þvi öðruvísi jól en indæl eigi að síður.

Óska öllum gleðilegrar hátiðar. 

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 


Tilgangslaust rifrildi um tvö eða þrjú prósent launahækkanir .... !

Þegar svo er komið að verkalýðshreyfingin með beintengingu við lífeyrissjóðina er orðin stór þáttakandi í íslensku atvinnulífi, þá þurfa menn ekki að láta sig dreyma um kauphækkanir á vinnumarkaði, eða hvað ? 

Þótt sú sem þetta ritar hafi verið flautuð út af vinnumarkaði vegna heilsutaps  þá hefi ég löngum haft skoðun á kjarabaráttu launþega hér á landi þar sem með ólíkindum er hvernig haldið hefur verið á málum, gegnum meint góðæri á árum áður sem og í framhaldinu, þar sem láglaunamaðurinn hefur sífellt borið æ minni hlut úr bítum samninga eftir samninga.

Margsinnis hefi ég gagnrýnt það atriði að samningsaðilar á vinnumarkaði kalli eftir aðgerðum stjórnvalda varðandi samningagerð hverju sinni, um samninga millum tveggja aðila.

Verkalýðsfélög og vinnuveitendur EIGA að semja eftir því umhverfi sem til staðar er hverju sinni sín á milli, punktur......

Ríkisstjórnir á hverjum tíma, alveg sama hvenær er, eiga ekki að koma þar nærri.

 

 

kv.Guðrún María. 

 


mbl.is Jólapakki sem er bara umbúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um daginn og veginn.

Það hefur lítið farið fyrir athafnasemi á þessum bæ, í rúmlega mánaðartima, þar sem heilsufarsbasl hefur verið verkefnið fram og til baka, og hvers konar jólastúss nær af dagskrá.

Það þýðir víst hins vegar ekki um það að fást , maður verður að  reyna að rífa sjálfa sig upp á afturlappirnar og reyna að koma sér í mögulegt gangfært ástand svo sem frekast er unnt.

Möguleikinn til aukinnar athafnasemi líkamlega, hjálpar til við  að rífa sig upp úr hvers konar vanlíðan sálarlega sem ástand sem  þetta orsakar.

Kuldatíðin undanfarið hefur þýtt það að klæða af sér allan kulda alla daga svo kuldinn geri ekki verkjatilstand verra og langt er síðan ég hef verið eins marga daga í lopapeysu frá morgni til kvölds.

Íslenski lopinn er hins vegar það eina sem dugar í  kuldanum undanfarið, en við Sunnlendingar erum hins vegar oftar en ekki í sveifludansi hitastigsins þar sem einn og sama daginn getur hitastigið farið úr sex stiga frosti í frostlaust veður.

Staðveður er vart að finna lengur um vetur, að mér finnst  þ.e veður sem varir vikutíma, annað hvort kalt eða heitt, heldur endalausar sveiflur upp og niður. 

Blessuð jólin, fæðingarhátíð frelsarans færa manni ætíð frið og kærleik í hjarta, hvernig svo sem umgjörðin kann að vera hverju sinni.

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 

 

 

 


Hörmulegur atburður, hvað þarf til að hafa yfirsýn yfir málefni veikra einstaklinga í voru samfélagi ?

Ég votta aðstandendum mannsins sem lést innilega samúð mína sem og lögreglunni hér á landi.

Raunin er sú að úrræði gagnvart einstaklingum sem hafa tvenns konar sjúkdómsgreiningu, annars vegar geðræn vandamál og hins vegar fíkn, eru vægast sagt af skornum skammti í voru samfélagi þar sem tilhneiging kerfisskipulagsins er sú að reyna að flokka þessi vandamál í sundur í formi úrlausna hvers konar í stað þess að takast á við heildaryfirsýn yfir vandann sem slíkan.

Þegar afskipti lögreglu af málum veikra einstaklinga koma til sögu  í fyrsta skipti þarf að fara í gang ferli sem inniheldur net samvinnu félags og heilbrigðismála ásamt aðstandendum, net þar sem samvinna og samhæfing þessara aðila gagnvart  viðkomandi einstaklingi er fyrir hendi, varðandi lyfjagjöf og varðandi stöðu viðkomandi frá tíma til tíma rétt eins og heimaþjónusta til handa öldruðum.

Mikilvægi samvinnu sem slíkrar getur skipt miklu máli um yfirsýn í málefnum einstaklinga sem oftar en ekki kunna að vera félagslega einangraðir og fárveikir og kanski tímaspurning um hvernig viðkomandi rekst á sitt samfélag.

Svo mörg eru þau orð.

 

kv.Guðrún María. 


mbl.is Farið verður yfir aðgerðir lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætisaðgerð sem skiptir máli í kjölfar hruns hér á landi.

Raunin er sú að það þurfti ríkisstjórnarskipti til að ráðast í þá réttlætisaðgerð sem nú hefur verið kynnt, varðandi skuldir íslenskra heimila, en fyrri ríkisstjórn hefði vissulega getað farið af stað með slíkt en til þess skorti annað hvort vilja, kjark, ellegar samstöðu innan þeirra hinna sömu flokka sem þá réðu ríkjum.

 

Fyrir mig er þetta ánægjulegur dagur þar sem ég er Framsóknarmaður og minn flokkur leiðir þessa ríkisstjórn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

 

kv.Guðrún María. 


mbl.is Greiðslubyrði lána lækkar strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband