Hagsmunir hins almenna launamanns á Íslandi.

Hvers vegna er það svo að nú árið 2007 að virkt upplýsingaflæði frá verkalýðsfélögum til handa nýjum starfsmönnum á vinnumarkaði um skyldur og réttindi gegnum trúnaðarmannakerfi er ekki í gangi. Þá ér ég að tala um reglulega fundi til dæmis fjórum sinnum á ári á hverjum vinnustað þar sem trúnaðarmaður fundar og nýtt fólk að störfum fær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að vita hvaða verk viðkomandi skal inna af hendi samkvæmt gildandi kjarasamningum félaga. Ég hefi unnið nokkuð lengi á vinnumarkaði og reyndar gegnt starfi trúnaðarmanns um tíma og veit að félögin ýta ekki á sína trúnaðarmenn til fundahalds, né heldur bjóða félögin sjálf sérstaklega upp á fundi um réttindi og skyldur reglulega mér best vitanlega. Þetta er hins vegar mjög slæmt og gerir það að verkum að breytileg verkefni eru hugsanlega innt af hendi frá einum vinnustað til annars hjá sömu starfsstétt. Heildaryfirsýn varðandi það atriði að vinnan innihaldi verkefni í samræmi við umsamin kjarasamning skortir að ég tel.

Álag á álag ofan, ef starfsmenn vantar að störfum.

Rekstur ýmissa stofnanna hins opinbera hefur gengið fyrir sig með því móti að í sífellu þar fólk að taka á sig álag dags daglega af mannaskorti vegna veikinda, þar sem enginn er til staðar til að leysa af án þess þó að fá svo mikið sem eina krónu fyrir. Fólk gefst upp og flýr störfin því engin eru mótmælin frá verkalýðsfélögum varðandi þetta hið sama atriði og vinnuveitendur alveg í friði með að hafa þetta bara svona. Slæm þróun en ekkert gerist meðan enginn veifar málinu.

Frysting skattleysismarka, var og er hneisa.

Það atriði að frysta mörk skattleysis og aftengja verðlagsþróun við upphæð sem var nær fátæktarskilgreiningu félagsmálastofnanna í rúman áratug er eitthvað sem hlutaðeigandi aðilar ríkisstjórn og verkalýðsfélög eiga enn eftir að útskýra hvers vegna var gert. Þar hefi ég enn ekki heyrt nokkur einustu rök fyrir slíkri aðgerð, en hvergi var að finna kröfu félaga við kjarasamningsgerð um hækkun þessara marka ár eftir ár eftir ár, því miður. Launþegar á Íslandi voru gerðir að þrælum á skattagaleiðu, þar sem saman fóru litlar sem engar launahækkanir til handa þeim lægst launuðu meðan skattleysismörk sátu föst og frosinn. Stundum mætti halda að menn hafi ekki yddað blýantinn við útreikninga þessa, hvað þá ritað tölur á blað.

Það er mál að linni og hver einn einasti maður á að eiga þau mannréttindi að lifa af launum sínum hér á landi fyrir fulllan átta stunda vinnudag. Annað er okkur ekki sæmandi sem þjóð.

Gleðilegan 1.maí ágætu landsmenn til sjávar og sveita. Frjálslyndi flokkurinn mun halda baráttufund í Aðalstræti þar sem okkar ágæti formaður Guðjón Arnar mun flytja ávarp kl.15.00.

kv.gmaria.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband