Mánaðarbið eftir tíma hjá heimilislækni á Selfossi.

 

Hringdi í morgun að panta tíma hjá mínum heimilislækni og fékk tíma eftir mánuð.
Þessi langi biðtími í fyrstu tegund heilbrigðisþjónustu finnst mér óviðunandi, þótt mér sé kunnugt um að fólksfjölgun hér á svæðinu hafi verið mikil.


Fólksfjölgun á svæðinu hlýtur að fylgja aukið fjármagn til þeirrar grunnþjónustu sem lögum samkvæmt ber að framfylgja.


Ég las mér til inni á heimasíðu Landlæknisembættisins, þar sem finna má viðmiðunarreglur frá 2016 um bið í slíka þjónustu, þar sem biðtími til heimilislæknis skal ekki vera lengri en 5 dagar.


Nú veit ég ekki hvort þessi biðtími til heimilislæknis er sama tímalengd annars staðar á landinu, en fróðlegt væri að vita hvort sú er raunin.

Hér er hins vegar hægt að hringja snemma morguns og panta samdægurstíma, nokkrar mínútur, hjá læknum sem eru á vakt.


Mikilvægi þess að hafa heimilislækni sem hefur yfirsýn yfir heilsufar manns og samskipti innan kerfisins er mikið. Jafnframt er traust millum sjúklings og læknis eitthvað sem skiptir máli.


Tilgangur þess að hafa heimilislækni finnst mér einhvern veginn, úti á túni, þegar biðtími er svo langur sem raun ber vitni.


kv. Guðrún María.


Hugleiðing um viðbótarvítamín.

Ég hef verið að kljást við heilsuvandamál undanfarið til viðbótar við mitt lélega bak, vandamál í fótum þar sem bólga við lið í öðrum fæti hefur verið þess valdandi að ég hef varla getað gengið nokkurn skapaðan hlut. Jafnframt hefi ég fengið bólgur í liði á höndum. Jú sennilega bara gigt og ekkert við því að gera að ráði hefi ég hugsað með mér. 

Ég hefi hins vegar verið að taka inn auka kalk nú í nokkur ár þar sem ég er ekki mikið í mjólkurvörum og að ráði doktors. Jafnframt ráðlagði doktor að ég skyldi taka innviðbótar magnesíum.

Nú síðast keypti ég þessi tvö efni saman í einni töflu, þar sem kalkið er rúmlega helmingi meira en magnesíum.

Nú í dag var ég í viðtali við hjúkrunarfræðing sem hefur verið að setja upp hreyfiprógramm fyrir mig og hún sagði að magnesíum og kalk ætti ekki að taka saman. Ég hafði heyrt þetta áður en fór að lesa mér betur til um þetta á netinu og fann þá afar fróðlegar upplýsingar um það að þessi tvö efni skyldu ekki tekin inn saman.

Því til viðbótar kom það einnig fram að hlutfall þessara tveggja efni skyldi vera 2 hlutar magnesíum á móti einum hluta af kalki.

Afar fróðlegt að mér fannst en jafnframt kom það fram á nokkrum stöðum í greinum sem ritaðar voru að kalkið í röngum hlutföllum við magnesíum getur gert ýmsan skaða í líkamanum t.d safnast í liði.  

Ég hef í hyggju að gera hlé á mínu bætiefnaátií bili eftir þennan lestur en sannarlega vildi ég að einhver hefði frætt mig meira einhvers staðar um það hið sama.

Lesefnið sem ég fann var ekki á íslenskum síðum heldur enskum.

Nóg í bili.

kv.Guðrún María.


Jólapólítik.

Landsmenn gengu til kosninga og kusu sér fulltrúa á þing, en þeir hinir sömu fulltrúar hafa enn ekki getað komið saman ríkisstjórn til þess að stjórna landinu. Hins vegar var það svo að einn flokkur Framsóknarflokkurinn, sem fékk jú kjörna fulltrúa á þing, hefur enn ekki átt aðkomu að þeim hinum sömu viðræðum sem farið hafa fram. Hvers vegna ? Jú vegna þess að nokkrum flokkum datt það í hug að útskúfa hann í viðræðum um stjórnarmyndun.

Flokkurinn tapaði fylgi en ekki eins miklu og Samfylking, sem þó var ekkert útskúfuð í þeim hinum sömu viðræðum.

Ný tegund af útskúfunarpólítik hefur verið tekin í notkun, umfram venjulegar línuskilgreiningar allra handa sem mótast hafa af því hvort keisarans skegg vísar austur eða vestur, suður eða norður.

Mjög fróðlegt.

Búið er að fara margar umferðir til hægri og vinstri í stjórnarmyndunarviðræðum án árangurs, svo mjög að hver flokkurinn á fætur öðrum virðist lítt stjórntækur við stjórnvölinn sökum skorts á hæfileikum til málamiðlana sem gæti komið ríkistjórn á laggirnar.

En eins og áður sagði var Framsóknarflokkurinn útskúfaður og það skyldi nú aldrei vera að sá hinn sami flokkur myndi loksins koma saman starfhæfri stjórn í landinu. ef hann fær að koma að því hinu sama máli.

 

Það kemur í ljós en enn situr gamla stjórnin og mín vegna má hún sitja áfram út kjörtímabilið, en, menn munu væntanlega ekki velja að kjósa seint að hausti aftur með óafgreidd fjárlög fyrir jól.

 

Sjálfsögð og eðlileg krafa kjósenda hlýtur að vera sú að kjörnir flokkar á þing komi ALLIR að borðinu til myndunar ríkisstjórnar og kári það hið sama verkefni.

 

 

kv.Guðrún María.

 

 

 

 


Kosningar framundan.

Framundan eru kosningar til Alþingis einu sinni enn. Fyrir mig sjálfa er valið auðvelt ég kýs sama flokk og ég kaus í síðustu þingkosningum Framsóknarflokkinn sem er sá miðjuflokkur í íslenskri póltík sem samræmist þeim viðhorfum sem ég kýs að sjá við stjórn landsins. Hann hefur einnig til að bera reynslu í farteskinu af stjórn landsmála til langtíma litið og það skiptir máli. 

Tilraunir nokkurra flokka til þess að mynda kosningabandalag fyrir kosningar að frumkvæði Pírata þar sem viðkomandi ákveða að útiloka sitjandi stjórnarflokka sem og þá flokka sem bjóða fram til Alþingis og hafa minna fylgi finnst mér ekki í anda lýðræðislegra vinnubragða heldur í ætt við forsjárhyggjupólítík.

Raunin er sú að hver einasti flokkur sem gefur sig út fyrir það fyrirfram að geta ekki starfað með öðrum í framboði eftir kosningar er því miður ekki stjórntækur að mínu áliti.

Skylda þeirra sem bjóða sig fram til þings er sú að mynda starfhæfa stjórn að loknum kosningum í ljósi niðurstöðu kosninganna, svo er og verður.

 

kv.Guðrún María.

 


Ég kýs Davíð Oddson til forseta.

Mér til mikillar ánægju kom Davíð Oddsson fram á sjónarsviðið sem frambjóðandi til forseta en að öðrum kosti hefði ég verið í virkilegum vanda varðandi það hvernig ég skyldi verja atkvæði mínu. 

Mig undrar það verulega hversu mikið fylgi Guðni virðist sækja samkvæmt skoðanakönnunum en manninn þekki ég varla neitt hvað varðar nokkurs konar þáttöku á þjóðmálasviði annað en það að hafa hlýtt á hann sem álitsgjafa hjá Ríkisútvarpinu, annað ekki.

Ég vil forseta sem hefur til að bera reynslu af stjórnmálasviðinu , ég tel það farsælt fyrir land og þjóð.

Ég hef aldrei verið flokksbundin í Sjálfstæðisflokknum en ég hefi haft mætur á Davíð Oddssyni gegnum tíðina og kaus hann til borgarstjóra í Reykjavík á sínum tíma. 

Hann ber höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur til forseta þessu sinni að mínu mati.

 

kv. Guðrún María.


mbl.is Hart tekist á í forsetakappræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisútvarpið og hlutleysi þess í fréttaflutningi.

Það er sannarlega ekki í fyrsta skiptið sem mér ofbýður fréttaflutningur á RUV hvað varðar skort á hlutleysi og í raun atlögu gegn ákveðnum aðilum í þessu tilviki sitjandi forseta Íslands sem ákvað að bjóða sig fram aftur enn eitt kjörtímabil. 

Meira og minna hefur hver aðalfréttatími snúist um vangaveltur þess efnis að þetta sé " skrítín ákvörðun " og alls konar fréttir að virðist eins og til þess að sá efasemdarfræjum allra handa.

Setningar eins og " Ekki eru allir á eitt sáttir um ákvörðun forsetans ........ " er dæmigert fyrir það hið sama.

 

Ég spyr til hvers þarf ég að borga nefskatt til þessarar stofnunar árlega ef það er ekki hægt að ganga út frá hlutleysi í fréttaflutningi ?

 

kv.Guðrún María.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Alþingi Íslendinga taki á kennitöluflakki fyrirtækja.

Karl Garðarsson hefur sett fram þjóðþrifamál þess efnis að taka á kennitöluflakki fyrirtækja, en það er með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera að móti því hinu sama.

 

Þetta er nefnilega ekki aðeins spurning um þjóðhagslegan ávinnig heldur einnig spurning um viðskiptasiðferði til framtíðar.

 

Ég hlýddi á Kastljós kvöldsins og satt best að segja átti ég ekki orð eftir að hlýða á Brynjar Níelsson bera fram athugasemdir við frumvarpið sem ekki vógu þungt á mínum vogarskálum og eins og áður sagði er það ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkur skuli setja sig upp á móti þessu þjóðþrifamáli.

Oft var þörf en nú er nauðsyn.

 

kv. Guðrún María.

 

 


Nokkur orð um hið íslenska tryggingakerfi.

Það eru all mörg ár síðan ég sjálf var á kafi ofan í því að skoða ýmsa þætti almannatrygginga og á þeim tíma fannst mér það deginum ljósara að um allt of flókna löggjöf virtist vera að ræða og einfalda þyrfti afar margt. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og fyrir um fimm árum lenti ég sjálf í vinnuslysi sem gerði það að verkum að starfsgeta var ekki fyrir hendi lengur og ég varð að sækja mín réttindi til almannatrygginga annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar.

Ég hafði greitt í lífeyrissjóði alla mína tíð á vinnumarkaði frá 16 ára aldri og átti því réttindi í fleiri en einum sjóði. 

Einn sjóður sem samanstendur af tveimur sjóðum sem ég á réttindi í hefur haft þann háttinn á að boða mig í viðtal árlega frá slysi, viðtal við trúnaðarlækni þess hins sama sem ég hefi að sjálfsögðu mætt til.

Í lok síðasta árs fékk ég bréf frá þeim hinum sama sjóði eftir heimsókn þangað þess efnis að það ætti að lækka greiðslur til mín sem nemur 25 prósent samkvæmt tillögu læknisins.

Ég kom af fjöllum og óskaði eftir gögnum þess efnis og er ég fékk sendan bunka af læknisvottorðum þar sem aðeins eina röksemdin sem finna mátti að ég hefði innt af hendi sjálfboðaliðastörf hluta úr viku um tíma, störfum sem ég þurfti að hætta vegna heilsu, sem og að ég sótti sjálfshjálparfundi einu sinni í viku klukkutíma í senn.

Með öðrum orðum út úr kú.

Ég sendi inn rökstudd mótmæli og sjóðurinn tók sér nokkurra mánaða tíma til að skoða það hið sama en niðurstaðan var sú að þeir héldu sig við það að skerða mig um minn lífeyri.  Svo vill til að mér er einnig kunnugt um það að fleiri aðilar hafa lent í nákvæmlega því hinu sama að sjóður þessi skerðir viðkomandi eftir viðtöl við lækni sjóðsins.

Þegar sjóðurinn skerðir réttindi sjóðfélaga, þá hækkar greiðsla almannatryggingakerfisins til handa viðkomandi ef ég skil þetta samspil rétt, en sjálf er ég ekki komin svo langt að tilkynna það hið sama hvað mig varðar.

Ég hlýddi á það í fréttum Ruv í hádeginu að umkvörtun lífeyrissjóða við núverandi breytingar væri sú að leita þyrfti til ríkisins með framlög vegna hækkunnar greiðslna frá sjóðunum til lifeyrisþega og hugsaði með mér já akkúrat.... 

Nú veit ég ekki hvernig þessar breytingar eru en gat ekki á mér setið að ræða pínulítið um þessi mál.

Mín skoðun er hins vegar sú enn sem áður að það þurfi að koma á samvinnu millum almannatrygginga og lífeyrissjóða því svo einfalt sem það er þá kostar umsýsla hvers lífeyrissjóðs fyrir sig fjármuni þar sem hver um annan þveran vinnur í sínu horni svo ekki sé minnst á sérreglur allra handa.

 Almannatryggingar eiga að taka við umsóknum um örorku sem síðan ættu að ganga til lífeyrissjóða að loknu mati Tryggingastofnunar.

 

kv. Guðrún María.

 

 

 

 


mbl.is Myndu búa við meiri skerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um daginn og veginn.

Það líður að jólum á þessu herrans ári 2015. Tíminn flýgur að mér finnst en blessuð jólin eru kærleikur og hátíð fæðingar frelsarans. Svo hækkar blessuð sólin eftir jólin og dagurinn lengist um hænufet í senn.

Þessi tími er sveipaður dulúð í minningu æskuáranna og þannig á það að vera því þessir sérstöku sveinar sem koma af fjöllum og gefa í skóinn eru allt í senn frábærir, furðulegir og uppátækjasamir.

Það er svo gott að finna barnið í sjálfum sér á þessum tímapunkti ársins og sjálf er ég mikið jólabarn.

Ég sakna þess að enginn skuli hafa innt af hendi það framtak að lesa jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum svo hægt sé að spila það fyrir ungviðið þennan tíma, en börnin elska að að hlusta á þessi kvæði lesin.

Missti af því að sjá jólasveinana koma akandi á Selfoss af Ingólfsfjalli þetta árið en það er flottur viðburður.

Vona að allir njóti jólaundirbúnings og jólahátíðarinnar sem best.

 

kv.Guðrún María.


Hver hefur umsjá með dýrakirkjugarðinum í Alviðru í Ölfusi ?

Orð eru til alls fyrst.

Fyrir stuttu síðan fór ég með vinkonu minni að jarðsetja hund , mikinn vin minn í grafreit í dýrakirkjugarðinum í Alviðru, þar sem önnur dýr fjölskyldunnar hafa áður verið jarðsett. 

Þarna er fjöldinn allur af fallegri umgjörð við leiði gæludýra í þessum garði en garðurinn sjálfur hefur ekki notið nokkurrar umhirðu hvað varðar garðslátt að sjá má sem er afar sorglegt.

Þrátt fyrir mikla leit á netinu að umsjónarmönnum með garðinum gat ég ekki fundið neitt, annað en að Landvernd hafi með Umhverfisfræðisetur að gera sem staðsett er á jörðinni Alviðru en eignarhald á Alviðru sýndist mér einnig vera á hendi Héraðsnefndar Árnesinga.

 

Veit einhver hver hefur umsjá með þessum gæludýrakirkjugarði í Alviðru í Ölfusi ?

 

 

kv.Guðrún María.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband