" Where I hang my hat, is my home... "

Heimakærari manneskja en ég er sennilega vandfundin, burtséð frá því hversu mikil vinna utan heimilis hefur verið til staðar gegnum tíð og tíma, þá hefur það ætíð verið númer eitt tvö og þrjú að vera heima og dúllast kring um sjálfa sig og sina.

Sennilega hefur þessi heimakærð hjálpað mér þegar mér var sparkað út af velli vinnumarkaðar fyrir tæpum þremur árum, varðandi það atriði að drepast ekki úr leiðindum yfir því að vera heima.

Ég þarf hins vegar alltaf að vera að gera eitthvað heima, þótt lærst hafi með tímanum að sníða því hinu sama stakk að vexti eftir efnum og aðstæðum heilsufarslega.

Að horfa á sjónvarp er eitthvað sem ég varla geri, nema fréttir og veður, því má ég ekki missa af, annað get ég varla sagt ég líti á, ég geri eitthvað annað en að glápa á sjónvarp, s.s að prjóna, eða baka og hagræða innan veggja heimilisins, þrifa og laga til. 

Það að þrífa og laga til var nú eitthvað sem mér fannst lengi vel það allra leiðinlegasta sem ég gat hugsað mér að gera en það viðhorf mitt hefur breyst með árunum, og óhjákvæmilega er það nú þannig að þegar maður eyðir meiri tíma á heimilinu en utan þess þá eygir maður fleiri annmarka en ella í því hinu sama.

Ég slapp billega í æsku við það að taka þátt í matargerð þar sem ég bóndadóttir og elsta barn fékk að vera með pabba í rollutilstandi í fjárhúsum og útiverkum en síðar kom það í bakið á mér þegar ég fór að búa og kunni ekki neitt í eldamennsku, en ég fékk frelsið til að velja á þeim tíma og það ber að þakka.

Mér finnst það hálf hlálegt nú í dag þegar sextugsaldur færist yfir að loksins nú skuli ég hafa virkilega gaman af því að baka og elda og prjóna, sem einhvern veginn var sjaldnast ofarlega á listanum áður, en svona getur þetta verið og einu sinni er allt fyrst, hvers eðlis sem er. 

 

kv.Guðrún María. 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband