Við Íslendingar þurfum að " sníða stakk eftir vexti ".

Hið efnahagslega hrun sem til varð og gengur nú yfir veröld vora er áskapað af manninum sjálfum sem gat farið sér hægar í háleitum draumum um vöxt peninga á trjánum.

Gegnum árin hefi ég oft rætt og ritað um það atriði að við þurfum að vera þess umkomin að laga kerfi okkar að framtíðinni, s.s. landbúnað og sjávarútveg en einnig skipulag svæða með það að markmiði að hver stjórnsýslueining hins opinbera stuðli að sjálfbærni eininga innan samfélags.

Árið 1998, lagði ég það til við þáverandi sjávarútvegsráðherra í bréfi til hans að kvótakerfi sjávarútvegs væri skipt í tvennt, þar sem mismunandi forsendur giltu, annars vegar þáverandi kerfi er var til staðar og hins vegar umhverfisvænar veiðar með vottun þar að lútandi og aukinni verðmætasköpun.
Mat á vægi aðferðafræðinnar millum mismunandi aðferða yrði síðan metið reglulega með tilliti til arðsemi, þar sem auka mætti vægi á hvorn veg sem væri.

Nákvæmlega sams konar skipulag vildi ég séð hafa varðandi landbúnað í landinu þ.e að kerfinu væri skipt til helminga í annars vegar hefðbundið kerfi og hins vegar kerfi undir formerkjum umhverfismarkmiða lífrænnar framleiðslu afurða, þar með talið nýtingu ræktaðs lands.

Í stuttu máli fleiri og smærri einingar til helminga við stærri og færri einingar með endurmati á arðsemi aðferðanna reglulega.

Ég reifaði einnig hugmyndir um það á sínum tíma, að sveitarfélög stuðluðu að því að íbúar stunduðu vinnu innan sveitarfélagsins með skattaívilnunum með það að markmiði að spara orku og fjármuni til samgönguframkvæmda, ásamt því að efla samfélagseininguna sem slíka.

Nú í dag er orkukostnaður með þvi móti að slíkt er frekar skynsamlegt.

Til þess að breyta þarf bein í nefið af hálfu stjórnmálamanna og það kemur í ljós hver mun breyta einhverju, hvar og hvenær, en það atriði að sníða stakk eftir vexti á hverjum tíma eru gömul og ný sannindi.

Fortíðin getur sagt okkur nóg um framtíðina og sú hin sama reynsla er í raun nægilegt veganesti.

kv.Guðrún María.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband