Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

" Ég gæti sagt svo margt og mikið......

mælt í hljóði, hafið raust,
en þótt í burtu, þyrlist rykið.
Það kemur aftur endalaust. "

Á árunum frá 1995 til 1997, var ég óþreytandi í baráttu til handa fólki sem stofnaði samtök gegn læknamistökum, samtökin Lífsvog, þar sem meðal annars var knúið dyra um það að innra eftirlit kerfins væri sem skyldi, og bent á hve óeðlilegt það væri að einn og sami aðili Landlæknisembætti skyldi hafa það hlutverk með höndum að standa hvoru tveggja, skil á gæðum kerfisins og úrskurða um annmarka þess í málum sjúklinga með kvartanir.

Baráttan fyrir því að fá Umboðsmann sjúklinga hér á landi hefur því miður enn ekki orðið að verueika en nauðsyn þess er mikil.

Sjálf ritaði ég margar greinar í dagblöð á þessum tíma um lyfjaaustur þann sem þá var til staðar í voru samfélagi og er er greinilega enn sama vandamálið sem ég tel að læknar sjálfir þurfi að taka á innan sinna vébanda, hvar er Læknafélagið í umræðu þeirri sem Kastljósið á heiður skilið fyrir að viðhafa undanfarið ?

Raunin er sú að hvert og eitt einasta kerfi þarf aðhald og umræðu og gagnrýni til þess að ekki sæki í sama farið, það hefur mér orðið ljóst á síðari árum og ef sú hin sama gagnrýni er ekki til staðar þá fer sem fer og menn vakna ekki upp fyrr en barnið hefur dottið ofan í brunninn, í stað þess að byrgja hann áður.

Því miður.

kv.Guðrún María.


Ánægjuleg þróun.

Því ber að fagna að loksins skuli þetta mál í höfn, og óska ég okkar samfélagi til hamingju með það.

Ég vil hins vegar minna á það að ekki er nóg að samþykkja lög, framkvæmdum þarf að fylgja nauðsynlegt fjármagn til þess sem laganna hljóðan segir til um, og vona að þingmenn standi vörð um það hið sama.

Miðað við samstöðu innan flokka á þingi um þetta mál þá vekur það vonir um slíkt.

kv.Guðrún María.


mbl.is Lög um táknmál samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er mikið að í barnaverndarmálum á Íslandi.

Fyrir það fyrsta eru börn og hvers konar aðkoma hins opinbera að málefnum þeirra að hluta til afgangsstærð í voru samfélagi, þar sem hvorki hefur verið varið nauðsynlegu fjármagni í þann málaflokk hér á landi í áraraðir, hvað þá að samstarf og skipulag kerfisins varðandi málefni barna sé með sama móti og aðrar ráðstafanir sem úthlutað er fjármagni til.

Því miður.

Það er einmitt athyglisvert að hér er dregið fram það atriði að mismunur sé á því hvort um sé að ræða forvarnir gegn áfengi eða tóbaki annars vegar og fíkniefnaneyslu hins vegar en síðastnefndi þátturinn er eitthvað sem yfirvöld hér á landi hafa staðið uppi með sem vandamál án úrlausna, til handa börnum.

kv.Guðrún María.


mbl.is Kalla eftir forvörnum í barnaverndarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um daginn og veginn.

Er komin með uppsett prógramm í minni sjúkraþjálfun fram á sumar, til þess að reyna að ná til baka heilsutetri mínu eftir slysið sl. haust.

Æfingar og þjálfun í tækjum sem hreyfa til jafns efri og neðri hluta likamans styrkja vöðvana og hjálpa til við að ná aftur því sem mögulegt er af hreyfingu í hryggnum.

Því til viðbótar hefi ég nú fengið belti sem ég fer í þegar ég finn verki og styðja við svo ég þurfi ekki að liggja úr mér verkina.

Ég hélt ég gæti komist gegnum þetta með þrjósku og látum en það gekk ekki, en ég gerði tilraun til þess, en verð að viðurkenna mitt ofmat í því efni.

Að öðru leyti gengur lífið sinn gang, upp og niður sitt á hvað eins og venja er.

Regnið er kærkomið nú hér á Suðurlandi þar sem askan rignir niður í jörðina og rykbinding verður til.

Vonandi er að hamförum þessum hafi linnt til handa þeim er verst hafa orðið úti í hamförum náttúrunnar.

kv.Guðrún María.


Forsjárhyggjan ferðast um í markaðshyggjuþokumóðunni.

Núverandi efnahagsstefna stjórnvalda er stórfurðuleg blanda af ofsköttun hins opinbera á sama tima og stjórnvöld ganga erinda hægri öfga markaðshyggju í raun.

Að skattleggja almenning út úr kreppu er galið, hvað þá að gera tilraun til þess að halda sama magni fjármálaumhverfis sem hrundi gangandi í " Nýju fötum keisarans " hér á landi á sama tíma.

Ekki bætir sú ákvörðun að sækja um aðild að Esb, ástandið á stjórnmálasviðinu heldur er þess valdandi að menn vita varla hvort þeir eru að fara austur eða vestur, sitt hvorn daginn, þar sem sitjandi flokkar í stjórn hafa ekki sömu stefnu í málinu.

Óvissa og ringulreið er afurð slikra hátta.

kv.Guðrún María.


mbl.is Steingrímur íhugi stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núverandi ríkisstjórn alveg eins og stjórnir fyrri ára í efnahagsmálum.

Meðan einkavæðingaræðið í íslensku samfélagi stóð sem hæst þar með talið sala banka úr ríkiseigu, steingleymdu menn því að laga forsendur að því hinu sama svo sem það atriði að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga samtímis.

Við hrun þeirra hinna sömu banka og enduruppgjör, kom annað tækifæri til þess að framkvæma þá hina sömu aðgerð af hálfu núverandi ríkisstjórnar en menn sátu og sitja enn með hendur í skauti í því efni, meðan heimilin og eignamyndun almennings brennur upp í báli verðbólgunnar.

kv.Guðrún María.


mbl.is Vaxandi verðbólga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veröld fíkniefnanna.

Kastljós ríkissjónvarpsins, og Jóhannes Krístjánsson á þakkir skilið fyrir þáttagerð um veröld fíkniefnanna, þar sem í kvöld var dregin fram hinn nöturlegi sannleikur þess efnis að hluti þeirra efna sem eru til sölu á undirheimamarkaði kemur sem ávísuð lyf af læknum til sjúklinga , afgreidd gegnum apótek, niðurgreidd af skattfé landsmanna.

Umfjöllunin um þessi mál hefur vakið fólk til umhugsunar vægast sagt, en umræða um þessi mál er og hefur verið af skornum skammti, þrátt fyrir það að vandinn sé djúpstæður og snerti marga í voru samfélagi sem þekkja til einstakinga er lent hafa fyrir þessum vágesti og ánetjast fíkniefnum.

Eitt samfélag þarf að fordæma fíkniefnin en hjálpa fíklunum, sem kallar á vitund um vandamálið í ríkara mæli en verið hefur.

kv.Guðrún María.


Eldfjallið drekkir hinni pólítísku umræðu um stund.

Mér skilst að utanríkisráðherra hafi verið í Silfri Egils í dag að ræða um ágæti Evrópusambandsins en svo vill til að ætíð þegar gýs hér hjá okkur á Fróni þá verður hin pólítiska umræða, undir um stund og flokksþing VG, hefur einnig fallið í skuggann að sjá má.

Það er ofur eðlilegt þvi virðingin fyrir náttúruöflunum er ofar í huga en það sem maðurinn getur þó breytt með afstöðu sinni og athöfnum í stjórnmálum hverju sinni.

kv.Guðrún María.


Gífurlegt erfiði fyrir bændur á svæðinu.

Það er án efa meira en að segja það að hýsa lambær með lömb á þessum tímapunkti, svo ekki sé minnst á það að smala fé í hús í öskubyl.

Sauðburður er mikið verkefni hverju sinni þótt ekki komi til sögu utanaðkomandi aðstæður sem þessar.

Æðruleysi bænda á hamfarasvæðinu er aðdáunarvert í þessum aðstæðum, en vonandi verður þetta ekki langvarandi ástand.

Þrautseigja og dugnaður íslensku þjóðarinnar, birtist einkum og sér í lagi undir þessum kringumstæðum.

kv.Guðrún María.


mbl.is Hugað að búsmalanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nota grímur úti við, meðan ástandið varir.

Þótt öskufall hér á höfuðborgarsvæði verði ekki í líkingu við það sem er nær eldstöðinni, þá er sjálfsagt að nota þau hjálpartæki sem til eru og einfaldar rykgrímur eru skárri en ekki neitt.

Sama má segja um það að binda klút fyrir vitin á ferðalögum milli staða.

Sjálf á ég til rykgrímu sem ég hef notað á veturna þegar svifrykið af götunum er óþolandi og ég þarf að þvælast um á þeim tíma.

Það er sennilega tæpt ár síðan við íbúar hér á höfuðborgarsvæði fengum öskumistur úr Eyjafjallajökli, í álika magni og virðist vera hér á ferð í kvöld.

Hjá mér hér í Hafnarfirði féll þunnt lag á disk á svölunum, milli átta og níu, en ég hef diskinn úti áfram í nótt og skoða á morgun.

Við þurfum samt ekki að kvarta hér miðað við þau viðfangsefni sem íbúar nær eldstöðinni fást við.

Góðar kveðjur til allra þeirra sem standa í slíku nú um stundir.

kv.Guðrún María.


mbl.is Öskufall byrjað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband