Hagfræði sem kann að tala, loksins Joseph Stiglitz

Afar gott viðtal var þennan ágæta mann í Silfri Egils í dag, en margt athyglisvert er einnig að finna í þessari frétt, meðal annars úrdrátt úr skýrslu sem hann vann fyrir Seðlabankann og ég set hér inn

úr fréttinni.

"

Efnahagsvandi Íslands

Þá segir í samantekt Seðlabankans: „Næst fjallar Stiglitz um þann efnahagsvanda sem Íslendingar glíma við um þessar mundir:

 

1. Íslenska hagkerfið glímir um þessar mundir við mörg þeirra vandamála sem hrjá lítil og opin hagkerfi sem nýlega hafa afnumið höft á fjármagnshreyfingar. Ísland hefur fylgt stefnu í peninga- og fjármálum sem mætti halda að væri skynsamleg. Samt sem áður hefur viðskiptahalli landsins aukist í 7% af VLF 1998/1999 og fór yfir 10% á árinu 2000. Það virðist vera eindregin skoðun flestra að þessi halli sé ekki sjálfbær. Lykilatriðið er hins vegar ekki hvort viðskiptahallinn er sjálfbær, heldur með hvaða hætti hann leitar jafnvægis. Mun lækkun viðskiptahallans leiða til mikillar lækkunar á genginu? Mun hún leiða til fjármálakreppu? Og mun þessi kreppa hafa langvarandi áhrif á hagkerfið? Lykilatriðið, hvað stefnu stjórnvalda snertir, er hvernig koma má í veg fyrir fjármálakreppu og/eða lágmarka neikvæð áhrif slíkrar kreppu.

2. Hagkerfið hefur á undanförnum árum verið að ganga í gegnum mikla uppsveiflu. Hagvöxtur hefur verið mikill og atvinnuleysi hefur nánast horfið. Þetta er í sjálfu sér jákvætt. Það sem veldur áhyggjum er hins vegar hugsanleg ofhitnun hagkerfisins og hættan á því að ójafnvægið sem myndast við slíka ofhitnun leiði til kreppu.

3. Besta vísbending um ofhitnun hagkerfis er verðbólga. Verðbólga hefur vaxið á Íslandi að undanförnu, en samt ekki jafn mikið og búast mætti við þegar litið er til uppgangsins í hagkerfinu. Verðbólgan ætti hins vegar að lækka á ný þegar verðhækkanir af völdum gengissigs eru gengnar yfir. Þegar verðbólgusaga íslenska hagkerfisins er höfð í huga er ef til vill skiljanlegt að mikil áhersla sé lögð á að ná verðbólgunni niður. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar dregið skaðsemi hóflegrar verðbólgu í efa. Verðbólga virðist hafa lítil sem engin áhrif á hagvöxt, og svo virðist sem vel útfærðar aðgerðir til þess að draga úr verðbólgu séu ekki mjög kostnaðarsamar, þ.e. í samanburði við ábata uppgangstímans.

4. Athygli íslenskra stjórnvalda ætti um þessar mundir að beinast í mun meira mæli að viðskiptahallanum en verðbólgu. Það fer eftir aðstæðum hvort viðskiptahalli er vandamál eða ekki. Ef viðskiptahallinn er notaður til þess að fjármagna fjárfestingu einkaaðila mun arðsemi fjárfestinganna væntanlega nægja til þess að greiða aukinn vaxtakostnað þjóðarbúsins. Viðskiptahalli af þessum toga ætti ekki að hafa nein áhrif að marki á gengi krónunnar. Þegar úr fjárfestingu dregur minnkar einfaldlega viðskiptahallinn án þess að gengisaðlögun þurfi að koma til.

5. Á undanförnum árum hefur verið afgangur af fjárlögum, og þótt raungengi krónunnar hafi hækkað í uppsveiflunni var hækkunin mun minni en á fyrri vaxtarskeiðum. Ef miðað er við meðaltöl fyrri tíðar virðist gengi krónunnar ekki hafa verið of hátt skráð á árinu 2000 og síðan hefur það lækkað verulega. Viðskiptahallinn sem Ísland býr við um þessar mundir virðist því hvorki vera til kominn vegna fjárlagahalla né af of háu gengi krónunnar. Tveir þriðju hlutar af viðskiptahalla áranna 1997-2000 skýrast af minnkandi sparnaði einkaaðila og einn þriðji af aukinni fjárfestingu. Gríðarleg aukning útlána á þessum árum bendir til þess að aukið frelsi í fjármagnsflutningum hafi að verulegu leyti valdið viðskiptahalla undanfarinna ára.

6. En er sú staðreynd að viðskiptahallinn á rætur sínar að rekja til hegðunar einkaaðila til marks um það að ríkið þurfi ekkert að aðhafast vegna hallans? Nei, ekki endilega. Þegar betur er að gáð á ríkið nefnilega meiri þátt í viðskiptahallanum en virðist vera við fyrstu sýn. Að svo miklu leyti sem markaðsaðilar telja gengið vera fast líta þeir á það sem tryggingu sem ýti undir erlendar lántökur. Bankakerfið er að hluta til í eigu ríkisins, og erlendir lánardrottnar hafa tilhneigingu til þess að trúa því að ríkið muni bjarga mikilvægum bönkum ef þeir lenda í vandræðum. Stjórnvöld hafa þar að auki áhrif á væntingar einkaaðila um framtíðartekjur. Þar sem viðskiptahalli er almennt talinn vera áhættuþáttur hvað fjármálakreppur varðar getur mikill viðskiptahalli aukið líkurnar á kreppu þótt hann sé góðkynja, einungis vegna þess að markaðsaðilar hafa ótta af þeirri reynslu að samband sé milli viðskiptahalla og fjármálakreppu."

 

Almenn sátt um að fastgengisstefna sé óheppileg

Að lokinni þessari umfjöllun um efnahagsvanda Íslands fjallar Stiglitz um þá stefnu sem almennt er æskilegt að stjórnvöld fylgi við þær aðstæður sem lýst er hér að ofan. Hann segir að ábati aukinnar alþjóðavæðingar sé svo mikill að ekkert land vilji einangra sig og missa þannig af honum, en alþjóðavæðingunni fylgi þó áhætta. Áhættustjórn sé í hnotskurn sá vandi sem lítil og opin hagkerfi standi frammi fyrir.

 

Stiglitz tengir vandann frjálsu flæði fjármagns og telur réttlætanlegt að ríkið hafi afskipti af fjármagnsflæði vegna áhrifa þess á flesta í þjóðfélaginu. Hann segir nokkrar gerðir takmarkana fjármagnsflæðis koma til greina, svo sem upplýsingaskylda, skattar, ýmsar gerðir reglna eða bein höft. Eins og annars staðar megi færa rök fyrir því að takmarkanir sem hafi áhrif á verð, svo sem skattar, hafi mikilvæga kosti umfram bein höft.

Þá segir hann almenna sátt vera að komast á um að fastgengisstefna sé óheppileg og að hún gangi vart til lengdar. Hann segir að menn séu ekki enn á eitt sáttir um það hvort eða í hversu miklum mæli seðlabankar eigi að stunda íhlutun á gjaldeyrismarkaði, sú saga sé ekki sérlega glæsileg. Hins vegar sé líklegt að íhlutun geti hentað því betur sem markaðurinn er þynnri.

Stiglitz segir að of mikil áhersla á reglur um eiginfjárhlutfall banka geti haft óæskilgar afleiðingar þegar kreppa ríði yfir. Þess vegna sé mikilvægt að stjórnvöld notist einnig við annars konar reglur, svo sem takmarkanir á hraða útlánaaukningar og takmarkanir á gjaldeyrisáhættu. "

Umræða Stiglitz um viðskiptahallann og spurninguna um á hverju hann byggist er atriði sem hann hefur dregið svo réttilega fram í sambandi við efnahagslandslagið, en slíkt hefur ekki verið dregið fram af öðrum sem ég hefi heyrt ræða þessi mál.

kv.Guðrún María.

 

 


mbl.is Segir AGS standa sig betur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband